145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska þess að það kæmi mér á óvart að heyra svona hluti. Ég vildi óska þess að ég upplifði einhverja hneykslunartilfinningu, en hún er eiginlega búin, ég er eiginlega búinn með hana þegar kemur að þessari tilteknu umkvörtun. Þetta er allt of dæmigert.

Þarna komum við einnig að því að vinnubrögðin jafnvel bara í þessu máli hefðu mátt vera betri án þess að við færum endilega út í allar mínar umkvartanir í sambandi við störf þingsins og hvernig samskipti Alþingis og ráðherra eru eða hvort ráðherra sækist eftir frekari völdum. Það geta vel verið málefnalegar forsendur séu fyrir því að ráðherra taki einhverjar ákvarðanir, það getur vel verið, en það er hins vegar ekki það sem ég sé í þessu máli og ekki það sem ég sé í málum frá hæstv. forsætisráðherra almennt, sér í lagi ekki í því að hann skuli taka yfir allan málaflokkinn.

En jafnvel þótt við mundum ekki ræða vinnubrögðin á Alþingi eða stöðu Alþingis gagnvart ríkisstjórninni, alveg óháð því hverju einstaka þingmenn og þingflokkar vilja breyta í sambandi við þingsköp og stjórnarskrá og allt það, hefðu nú vinnubrögðin í þessu máli mátt vera betri bara út frá því að vilja koma málinu í gegn yfir höfuð. Og algjörlega burt séð frá því hvað mönnum finnst um hvernig hlutirnir ættu að vera, ef markmiðið væri það eitt hjá hæstv. forsætisráðherra að koma málinu í gegn held ég að hann hefði getað staðið allt öðruvísi að því og útskýrt fyrir þeim fagaðilum, þeim aðilum sem málið varðar, sem eru ekkert endilega bara þeir sem starfa í þessum stofnunum, hvers vegna þetta er góð hugmynd. En eins og fyrr greinir eru það almennt vinnubrögð hæstv. forsætisráðherra burt séð frá öllum lögum og reglum og hefðum, og almennri skynsemi, ef út í það er farið, að böðlast áfram með hlutina af krafti og í baráttuanda, eins og það sé sjálfstætt markmið að gera það þannig að það fari sem mest í taugarnar á sem flestum.