145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég hef ekki haft færi á að kynna mér fýsileikagreininguna. En varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. þjóðmenningarstjórnina eða þessa ríkisstjórn sem vill helst vera séð sem slík, held ég að hæstv. forsætisráðherra vilji sjálfur hafa þessi mál í lagi. Ég trúi því staðfastlega að honum sé annt um þjóðmenninguna. Ég held hins vegar ekki að vinnubrögðin sem hann stundar eða eru oft stunduð á Alþingi séu best til þess fallin að koma fram einhverjum breytingum sem eru í samræmi við það sem hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra, sem er að þessi mál séu ekki bara í lagi heldur til fyrirmyndar.

Hvernig fer maður að því að ná framförum í þessum málum þannig að sem bestur árangur náist, að því gefnu að við séum öll sammála um að við viljum hafa þessi mál til fyrirmyndar? Þetta er jú Ísland. Okkur hlýtur öllum, einnig hæstv. forsætisráðherra, að þykja mjög vænt um þessi mál. Ég dreg alls ekki úr því að hann vilji hafa þessi mál til fyrirmyndar hér. En þegar menn greinir á um hvaða leiðir á að fara, hvernig stofnanafyrirkomulagið á að vera hljóta menn með sameiginleg markmið að geta sest niður með hagsmunaaðilum, fagaðilum og þingmönnum, ef út í það er farið, og öðrum aðilum úti í samfélaginu og reynt að komast að einhverri niðurstöðu sem ekki er alla vega bullandi ósætti um. Mér finnst rosalega skrýtið að það sé ósætti um mál eins og þetta þegar við hljótum öll að vilja ná þessu sameiginlega markmiði að lokum. Það er það sem mér finnst skrýtið við þetta mál.

Það sem er í raun og veru verst við þetta mál er það er annars vegar að hæstv. ráðherra vill sífellt ráða meiru. Það er pólitískt markmið hans sem ég er á móti í grundvallaratriðum í þessu máli og fleirum. En ég held að það spretti ekki af illhug í grundvallaratriðum, heldur bjóða vinnubrögðin ekki upp á góðan árangur í þessum málaflokki sem allir ættu að vera sammála um.