145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég var svolítið hugsi undir þessari umræðu og ég spyr: Hver er rótin að þessu öllu saman? Hvernig stendur á því að frumvarpið er komið fram eins og það er? Ef maður leiðir sig eftir atburðarásinni þá má rekja upphafið til sumarbústaðaferða árið 2013 þegar menn voru að semja um ríkisstjórnarsamstarf. Þá er samið um að flytja þau menningarverkefni sem sérstaklega má tengja orðinu þjóð úr menntamálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Hvers vegna? Af því að það á að gera eitthvað sérstakt? Það kemur ekkert í ljós. Það stendur að vísu í stjórnarsáttmálanum að leggja eigi áherslu á þjóðleg verkefni og eitthvað svoleiðis. En það eru áhugamál forsætisráðherra sem valda því að þessi verkefni eru færð yfir og þessi vilji til að safna að sér völdum og ákveða einn og vera aðal leiðir til þess að þessi frumvörp eru lögð fram. Mikið hefur verið talað um húsverndarfrumvarpið í því samhengi. Ég velti fyrir mér: Þurfum við að breyta einhverju í stjórnarráðslögunum til þess að þetta sé ekki hægt? Ég velti því fyrir mér.