145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég álít að það þurfi að breyta ýmsu, sér í lagi þegar kemur að aðhaldi. Ég held að aðhald Alþingis þurfi að vera mun ríkara gagnvart ríkisstjórn. Ég held að aðhald almennings að Alþingi þurfi að vera mun ríkara.

Hv. þingmaður spyr hver sé rótin að þessu. Ég get bara giskað á það út frá upplifun minni af vinnubrögðum hæstv. ráðherra. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé sérstakt áhugamál hæstv. forsætisráðherra og þess vegna vilji hann ráða þessum málaflokki og leggi fram þessi lög. Ég kann ekki að svara fyrir forgangsröðunina þar á bæ heldur, það virðast vera nóg af verkefnum þar eins og víðar.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að menn almennt efist ekki um eigið vald. Fólk almennt telur sig hæft til að hafa það vald sem það hefur. Að mínu mati þarf sérstaka umgjörð af ýmsu tagi, í formi laga, reglna, siðareglna jafnvel, og mekkanisma til þess að vel sé farið með vald. Mér finnst þessi mál í fleirtölu frá hæstv. forsætisráðherra undirstrika það að við höfum ekki útkljáð þá spurningu hér á hinu háa Alþingi nógu vel eða þá í samfélaginu, nema kannski upp að því marki sem hófst á seinasta kjörtímabili og varðar stjórnarskrá lýðveldisins.

Ég held að það þurfi að breyta ansi mörgu til þess að farið sé með vald af ábyrgð hér á Íslandi almennt. Við búum við einhvers konar ríkisstjórnarræði þar sem það þykir algjörlega sjálfsagt að ríkisstjórnin sé með meiri hluta Alþingis. Af hverju er það sjálfsagt? Af hverju er það sjálfsagt að Alþingi setji lög samkvæmt vilja ríkisstjórnarinnar? Mér finnst það ekki endilega rétta leiðin og það er ekki hefðin alls staðar. Ég held að rótin að vandanum sé ansi víða, en hún felst í því hvernig við höfum gleymt því í gegnum tíðina að hugsa spurningar um vald til enda hér á landi.