145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Hv. þingmaður talaði af mikilli þekkingu um þessi mál og upplýsti meðal annars um vinnuna sem var að baki löggjöfinni bæði 2011 og 2013, sem er mjög mikilvægt að hafa í huga í þessari umræðu. Hv. þingmaður benti á að þarna sé aðeins um þriggja ára lagaumgjörð að ræða. Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða áhrif hún telji að þessi hringlandaháttur hafi á stofnanirnar og starfsfólk þeirra og einnig nýtingu sérfræðiþekkingar, m.a. í menntamálaráðuneytinu. Þegar verið er að taka út úr fagráðuneyti svona stóra málaflokka eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og skella þeim undir forsætisráðuneytið lætur maður sér detta í hug að nýtingin á mannauði og sérþekkingu fari að einhverju leyti fyrir bí.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann ef hún hefur tíma hvort hún geti tiltekið hvaða árekstra megi vænta vegna þess að stjórnsýsla og rannsóknir verða komin undir sama þak og hver staða Þjóðminjasafnsins verður ef þetta frumvarp verður að lögum, hvort hugsanlegt sé að dagar Þjóðminjasafnsins sem rannsóknastofnunar séu þá taldir, hvort trúverðugleikinn sé farinn þegar kemur að rannsóknum.