145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni finnst mér ekki sniðugt að ráðherrar og hæstv. forsætisráðherra taki til sín málefni og smíði um þau frumvörp eftir áhugasviði sínu. Það getur ekki verið góð stjórnsýsla. Það er augljóst að það gengur ekki. Mér finnst mjög sérstakt að hæstv. forsætisráðherra skuli leggja þetta frumvarp fram núna þegar ekki eru margir þingfundadagar eftir af þessu þingi og aðeins einn vetur eftir fram að kosningum.

Telur hv. þingmaður einhverjar líkur á því að þetta frumvarp verði að lögum? Segjum sem svo að það verði að lögum, er þá ekki langlíklegast að þetta vari aðeins í eitt ár? Hverjar eru líkurnar á því að hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins samþykki það í atkvæðagreiðslu að hringla svona með stofnanir og verkefni til og frá, bara fyrir eitt ár, til að þóknast áhugasviði hæstv. forsætisráðherra? Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að að minnsta kosti hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni gera það. En ég vil spyrja hv. þingmann hver hann telur að afdrif frumvarpsins verði.