145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög litla innsýn inn í hugarheim hv. þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég hef kynnst nokkrum þeirra betur en öðrum, en það er erfitt, ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, það er eitthvað sem ég geymi fyrir samtöl í kaffistofunni. Ég get þó ekki af þeim nánu kynnum dæmt nákvæmlega hvernig þessir hv. þingmenn munu fara með þetta mál. Ég vil segja það, herra forseti, að ég held að ég verði að setja mig á mælendaskrá aftur í málinu því að ég er svo fjarri því að vera búin að fara yfir allar þær spurningar sem ég tel að hv. allsherjar- og menntamálanefnd verði að fara yfir. Hv. þingmaður spyr hvort þetta mál muni klárast en ég held ekki ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd tekur málið föstum tökum og fer yfir röksemdafærsluna.

Ég nefndi skip og báta sem eru ekki undirbúningur að friðlýsingu á skipum og bátum, sem ég veit ekki af hverju eru eðlisólík húsum og mannvirkjum. Þau verða ekki á hendi ráðuneytisins. Ég trúi ekki öðru en að annaðhvort geri hv. allsherjar- og menntamálanefnd tillögu um að færa húsin og mannvirkin aftur yfir til Minjastofnunar eða Þjóðminjastofnunar eða að færa skipin og bátana yfir til forsætisráðherra og allt heila „gillimojið“ ef það er yfirlýst markmið, sem kemur fram í fýsileikagreiningu, að einfalda málaflokk minjaverndar á Íslandi frá sjónarhóli almennings og annarra aðila. Horfum á almenning í landinu sem vill friðlýsa eitthvert skip og fer til forsætisráðherra eða Minjastofnunar. En nei, þetta er ekkert á sama stað, þegar maður vill friðlýsa skip og báta annars vegar eða friðlýsa hús og mannvirki hins vegar. Hvernig nákvæmlega verður þetta til einföldunar á málaflokki minjaverndar og til þess að minnka flækjustig?

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því hvernig þessum markmiðum er náð, en ég held að það sé ekki vænlegt ef næsti forsætisráðherra hefur mikinn áhuga á glæpasögum, (Forseti hringir.) mun hann þá leggja til að færa Miðstöð íslenskra bókmennta undir forsætisráðuneytið?