145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það, eins og fleiri hafa gert hér í dag, hversu óskynsamlegt það er að vera að hringla með málefni og stofnanir milli ráðuneyta eftir áhugasviði ráðherra. Hv. þingmaður benti einnig á að ekki er mikið eftir af kjörtímabilinu, í mesta lagi rúmt ár, og engar líkur á að næsti forsætisráðherra hafi áhuga á að hafa þessi málefni í forsætisráðuneytinu. Það er alla vega mitt mat á stöðunni eins og hún er.

Rökin fyrir breytingunni eru meðal annars fagleg. Í greinargerð með frumvarpinu er sýnt fram á að sparnaðurinn yrði um það bil 47 millj. kr. á ári. En þó mun sá sparnaður ekki koma fram fyrsta árið og kannski verður einhver kostnaður við flutninginn fram á næstu ár. Þar með er fjárhagslegur ávinningur farinn, að minnsta kosti að mínu mati vegna þess að ég held að þetta muni aldrei standa lengur en eitt ár.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þetta og um mat á kostnaði við sameiningu stofnananna sem fram kemur í skýringum með frumvarpinu.