145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar, og fór yfir það áðan, að við ættum að vera að ræða önnur mál hér í þinginu í dag, eða annað mál, vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp í stjórnmálum á Íslandi og snertir hæstv. forsætisráðherra beint. Ég skil ekki enn þá ákvörðun forseta Alþingis að hafna þeirri sanngjörnu og eðlilegu beiðni að ræða slík mál. Það ræð ég ekki við.

Ég skil ekki heldur forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í lagafrumvörpum sem koma hér inn í þingið. Mér sýnist ríkisstjórnin vera orðin það duglaus og það verklaus og það hugmyndasnauð að hún sé farin að kafa ofan í persónuleg áhugamál. Kannski snúast ríkisstjórnarfundir um þetta í dag. Á hverju hefur þú mestan áhuga? Hvað langar þig til að fá? Ég skal taka minjamálin, ekki bátana, ég nenni því ekki, þeir eru leiðinlegir. Hver ætlar að taka að bátana að sér? Hefur það ekki verið kannað, virðulegur forseti, hvort einhver hefur sérstakan áhuga á (Forseti hringir.) friðun skipa og báta? Kannski á Vestfjörðum, það er fullt af gömlum bátum þar. Bátarnir rúmast greinilega ekki innan áhugasviðs hæstv. forsætisráðherra.