145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég staldraði aðallega við það sem fram kom í máli hv. þingmanns sem lýtur að hluta til að sambærilegum athugasemdum sem upp komu við þingmál hæstv. utanríkisráðherra um Þróunarsamvinnustofnun þegar við urðum þess áskynja að greinargerðin var ekki fagleg að öllu leyti. Þar var um að ræða dylgjur í garð stofnunar sem enginn hefur séð að hafi gert annað en staðið sig vel, dylgjur sem greinilega var ætlað að rökstyðja pólitískan vilja eða pólitíska niðurstöðu ráðherrans. Mér finnst það vera mikið áhyggjuefni ef það er það sem fyrir á okkur að liggja, að sjá aftur og aftur í þingmálum eða stjórnarfrumvörpum sem koma hér fram og fara í gegnum alla þessa síu, þ.e. í gegnum ráðuneytin, í gegnum ríkisstjórn, og þar með yfirlestur úr forsætisráðuneytinu, og í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna og koma svo til þingsins. Og grandvarir þingmenn sitja uppi með það og verða þess jafnvel áskynja með fullum rétti að greinargerðin með málinu er þannig að maður getur ekki treyst henni. Það finnst mér alvarlegt mál.

Mig langar til að biðja hv. þingmann að nefna þau dæmi sem hún telur vera skýrust um nákvæmlega þetta að hér séu atriði í greinargerðinni þar sem ekki er farið með rétt mál að öllu leyti. Hálfsannleikur var orð sem hv. þingmaður notaði. Hér hefur komið fram að skautað er fram hjá síðustu lagabreytingum í málaflokknum. En það kemur líka mjög skýrt fram að látið er að því liggja að hér hafi verið viðhaft verulegt samráð (Forseti hringir.) þegar í ljós kemur að enginn af þeim sem vísað er (Forseti hringir.) til í samráðskaflanum telur og er tilbúinn (Forseti hringir.) að ganga fram fyrir skjöldu og halda því fram að samráðið hafi verið raunverulegt.