145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona nú sannarlega að embættismannakerfið hjá okkur sé þannig að reynt sé að hnippa í ráðherra ef þeir eða þær ætla að ana út í einhverja dellu. Hins vegar gæti ég vel trúað því að í sumum tilfellum skipti það ráðherrann ekki miklu máli og hann eða hún segi bara: Ég ætla að hafa þetta svona og gerið þið þetta, gjörið svo vel.

Af því að hv. þingmaður nefndi Þróunarsamvinnustofnun held ég að þar sé svolítið ólíku saman að jafna vegna þess að í því tilfelli var náttúrlega vitað að embættismenn í utanríkisráðuneytinu hefðu mikinn áhuga á því að sú sameining yrði. Ég held að það skýri svolítið ákafann í ráðherranum þar.

En ég leyfi mér að hugsa það upphátt hvort það geti verið að menn hafi reynt að hnippa í forsætisráðherrann en hann hafi viljað hafa þetta svona. Ég trúi alveg manni til þess sem ætlar að vera forsætisráðherra og lætur sér detta í hug að flytja áhugamál sitt á milli ráðuneyta, að segja við starfsmenn í ráðuneytinu: Gerið bara þetta frumvarp, ég segi ykkur það! Ég vil hafa það svona.

Af hverju skyldi það ekki vera fyrst mönnum dettur í hug að fara þannig með málefni Stjórnarráðsins eins og raun ber vitni?