145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í athugasemdum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Hinn 27. nóvember 2015 skipaði ráðherra stýrihóp sem falið var það hlutverk að endurskipuleggja verkefni Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands.“

Forsætisráðuneytið tilkynnti á vef sínum 22. febrúar, þ.e. tæpum þrem mánuðum síðar — og inni í því er jólafrí sem tekur samtals um hálfan mánuð, þarna eru fjórar, fimm vinnuvikur að baki — að áðurnefndur stýrihópur hafi skilað af sér frumvarpi um sameiningu þessara tveggja stofnana í Þjóðminjastofnun.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji að fjórar til fimm vinnuvikur, 27. nóvember til 22. febrúar, dugi til að búa slíkt mál til þinglegrar meðferðar, sem sagt sameiningu tveggja stofnana í eina. Að ég tali nú ekki um að það virðist einskis samráðs hafa verið fylgt við gerð frumvarpsins því að Minjastofnun sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingarinnar þann 22. febrúar (Forseti hringir.) um að sú fullyrðing sem kæmi fram í fréttatilkynningunni, að frumvarpið hefði verið unnið í samráði við Minjastofnun, væri röng. Hvað telur hv. þingmaður um það?