145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki gott að segja. Það er alveg ljóst að hér er ekki unnið eftir þeim reglum og aðferðum sem ætti að gera og ég held að verkferlið standist ekki þá gæðastaðla sem búnir hafa verið til. Ég held að óhætt sé að segja það. Ég held að menn fari eftir eigin óskum og þetta sé hugarfóstur og duttlungar forsætisráðherrans, ég held að það hljóti að vera það sem ræður för. Það er ámælisvert að þetta komi hingað. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hefur nokkrum sinnum í dag minnst á frumvarp um verndarsvæði í byggð, sem varð að lögum. Það mál var af sama toga og þetta. Það voru einhverjir duttlungar forsætisráðherrans.

Við erum í minni hluta. Við ráðum ekki við það. Við reynum að ræða málið og við reynum að spyrja spurninga, en sá sem flytur frumvarpið er í felum einhvers staðar. Hann er í feluleik í húsinu þannig að ekki sjáum við hann og hvað þá að hann svari einhverjum spurningum okkar. Nú verðum við bara að treysta á meiri hlutann í þinginu. Við verðum að treysta á að sjálfstæðismennirnir láti ekki ana lengra með sig út í forina en orðið er í þessum efnum. Ég bara óska að menn sjái að sér í þeim efnum.