145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri í upphafi þessa fundar til að lýsa undrun á dagskrá þingfundarins í dag. Það hafa orðið mikil tíðindi sem varða ríkisstjórn Íslands og tiltrú á forsætisráðherra landsins. Þjóðin er í senn slegin og hrygg yfir fréttum síðustu daga og vikna og um allan heim eru myndir af hæstv. forsætisráðherra í félagsskap með mörgum af undarlegustu og illvígustu einræðisherrum heims. Ísland býr við það, eitt vestrænna lýðræðisríkja, að forustumenn ríkisstjórnarflokka þess lands eru með fé í skattaskjólum. Mér hefði fundist eðlilegt að þingfundur hefði hafist á skýrslu hæstv. forsætisráðherra um þessa stöðu og að hann virti þjóðina og þingið þess að koma og leggja spilin á borðið og opna almenna umræðu um þessi mál. Ég hlýt að lýsa eftir meiri alvöru af hálfu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) gagnvart þessu stóralvarlega máli sem nú er uppi þar sem þjóðarheiður (Forseti hringir.) er í veði og forustumenn ríkisstjórnarflokkanna virðast ekki axla þá ábyrgð sem á þeim liggur.