145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er vægast sagt undarlegt að koma til þings að afloknu páskahléi og eiga að ganga til dagskrár eins og ekkert hafi í skorist, eins og ekkert hafi gerst. Ég held að það séum ekki einungis við, hv. þingmenn í minni hlutanum, sem erum hissa á þessu heldur sé það þjóðin öll. Íslensk þjóð hefur, held ég, rétt verið að átta sig eða rétta úr kútnum eftir það áfall sem efnahagshrunið var og þau áhrif sem það hafði á sjálfsmynd þjóðarinnar. Ég er hrædd um að nú séum við aftur komin á byrjunarreit. Við uppgötvuðum að þar værum við með Kastljóssumfjölluninni í gærkvöldi. Það eru mér gríðarlega mikil vonbrigði að hæstv. forsætisráðherra sé ekki nú þegar búinn að segja af sér. Ég ætla rétt að vona að áður en þingfundi lýkur í dag (Forseti hringir.) verði hæstv. forsætisráðherra búinn að segja af sér.