145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Vanvirða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, gagnvart þinginu, vanvirða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, gagnvart fólkinu sem kaus hann, vanvirða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gagnvart flokknum sínum, vanvirða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, gagnvart blaðamönnum sem eru að vinna vinnuna sína, vanvirða hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gagnvart hagsmunum þjóðarinnar er slík að ljóst er að ekki verður við það unað að hæstv. ráðherra sitji áfram á Alþingi. Þjóðin verður að fá þennan ráðherra til að bregðast við þeim trúnaðarbresti og því vantrausti og þess vegna er kallað eftir tafarlausri afsögn ráðherrans. Alþingi getur ekki starfað eins og ekkert sé (Forseti hringir.) á meðan við búum við þetta neyðarástand. Það er alveg ljóst, forseti, að við getum ekki verið með hefðbundna þingfundi á meðan hæstv. forsætisráðherra situr í salnum. Það er ljóst. (Forseti hringir.)

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segðu af þér.