145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki hefðbundið pólitískt karp hér í þingsalnum. Hér er spurt um grundvallaratriði og varðar fólk í öllum flokkum og veldur fólki í öllum flokkum alvarlegum áhyggjum því að það er spurt um stöðu Íslands í heiminum.

Erum við vestrænt nútímalegt lýðræðisríki eða skipum við okkur á bekk með spilltustu löndum í heiminum?

Þetta er sorglegur dagur og því er ekki að leyna að ég taldi að það stæði upp á forsætisráðherra en ekki stjórnarandstöðuna að leysa úr þessari stöðu og segja af sér. Um það kunnum við að vera ósammála. En ég hélt að við værum öll sammála um að hæstv. forsætisráðherra skuldi íslensku þjóðinni skýringar. Það væri þó að minnsta kosti að algjöru lágmarki það sem við gætum verið sammála um og að hann mundi nota þennan ræðustól til þess að stíga upp og skýra fyrir þjóðinni sín sjónarmið og hvernig á þessu standi. (Forseti hringir.)

Ég held að það lýsi best stöðu forsætisráðherra að hann kýs að gera það ekki, að hann kýs ekki að gera þjóðinni grein fyrir þeirri stöðu sem upp er komin.