145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:42]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Spilaborgin hrundi í gær. Svo virðist sem sá sem reisti hana geri sér ekki grein fyrir því. Það er auðvitað þannig að þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, segist í samtali við fjölmiðla ekki tilbúinn til þess að lýsa því yfir að hann styðji hæstv. forsætisráðherra þá er ríkisstjórnin búin, ef hann þarf að ráðfæra sig sérstaklega við þingflokk sinn áður en hann lýsir því yfir. Það er best fyrir alla úr því að hæstv. forsætisráðherra, og samkvæmt þingsköpum ber maður að nefna hann hæstvirtan, ætlar ekki að segja af sér af sjálfsdáðum að menn fari fram með vantrauststillögu og hún verði borin upp hér svo fljótt sem verða má þannig að menn fái einhver svör, einhverja skýringu á þeirri þrúgandi (Forseti hringir.) þögn sem stafar frá stjórnarmeirihlutanum í þessari umræðu.