145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég gerði orðspor okkar og stöðu í augum umheimsins að umtalsefni og geri ekki lítið úr því áfalli sem við höfum orðið fyrir þar. En fyrst og fremst á auðvitað hæstv. forsætisráðherra að segja af sér okkar sjálfra vegna sem þjóðar, sem lýðræðis- og þingræðisríkis. Við verðum að sýna sjálfum okkur það ekki síður en umheiminum að svona lagað geti ekki gengið.

Það yrðu væntanlega fyrstu og sennilega einu málsbætur hæstv. forsætisráðherra ef hann segði tafarlaust af sér í því skyni að forða landi og þjóð frá meira tjóni. Það yrði metið einhvers. Ef ekki þá byrjar álitshnekkirinn að yfirfærast á landið og þjóðina alla. Ef forsætisráðherra sér þetta ekki og notar ekki tækifærið sem hann enn þá hefur til að gera þetta sjálfviljugur þá verður þingið að gera það. Af því að við berum annars ábyrgð, öll hér inni, á því að hafa forsætisráðherra af þessu tagi fyrir landinu.

Það er þingræði á Íslandi. Hér á að sitja þingbundin ríkisstjórn (Forseti hringir.) og þess vegna verður það okkar hlutskipti ef hæstv. forsætisráðherra ber ekki gæfu til að gera þetta sjálfur.