145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hann er byrjaður aftur, trumbuslátturinn á Austurvelli sem maður vonaði að mundi ekki heyrast aftur í bráð. Það rifjast upp í huganum mjög frægt skilti frá því í búsáhaldabyltingunni, frá því í mótmælunum eftir hrun. Á því stóð, með leyfi forseta: „Helvítis fokking fokk.“ Þannig líður mér. Mér líður bara eins og það starf sem margir hafa verið að inna af hendi af heiðarleika við að byggja upp traust þessa lands, byggja upp tiltrú, byggja upp samfélag — allt það starf er í klessu núna. Við erum með frægasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar á forsíðu allra blaða þessa dagana. Hann situr hér, (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra, þekktastur fyrir það …

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmann að gæta orða sinna.)

… að vera með pening sinn í skattaskjólum og hvað þýðir það? Spyrjum okkur einnar samviskuspurningar: Mundum við vilja að allir Íslendingar væru með peninginn sinn á Tortólu? (Forseti hringir.) Af hverju ekki? Af hverju er það svona slæmt? (Forseti hringir.) Af hverju má hæstv. forsætisráðherra það augljóslega ekki?