145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir orð síðasta ræðumanns af því að þjóðin okkar er bæði sorgmædd og beygð. Þetta er ekki pólitískt hatur eða eitthvað slíkt sem hér er verið að koma á framfæri. Það er siðrof í samfélaginu ef þetta verður látið viðgangast. Auðvitað á forsætisráðherra að sjá sóma sinn í því að stíga til hliðar. Það er enginn ómissandi, ekki hæstv. forsætisráðherra frekar en við hin. Það að hann ætli að sitja hér í skjóli einhverra tiltekinna afreka eða vegna þess að hann eigi svo miklu ólokið, ég held bara að hann hafi ekki traust meiri hluta þjóðarinnar til þess. Ég held að þjóðin treysti ekki þessari ríkisstjórn til að fara með þau risastóru mál sem fram undan eru og þarf að fara í.

Það er gott fólk í öllum flokkum, um það eru allir sammála, sem ég treysti að styðji ekki núverandi forsætisráðherra til áframhaldandi setu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er ágætt að minnast á, þegar verið er að tala um orðræðuna, að fyrir ekki svo löngu (Forseti hringir.) var þingmaður hér fordæmdur fyrir það eitt að nefna aflandsfélag á nafn (Forseti hringir.) og það voru ansi margir þingmenn sem viðhöfðu stór orð um þann þingmann og þar á meðal hæstv. forseti.