145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[16:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær og í dag höfum við, Ísland, með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar verið á forsíðum heimspressunnar og í vægast sagt neikvæðu ljósi. Ég þarf ekkert að fara yfir það.

Á sama tíma ákveður hæstv. forseti að setja á dagskrá umræðu um plastumbúðir og metanframleiðslu, allt góð og gild mál en við eigum að vera að ræða þá stöðu sem heimspressan er að fjalla um. Við eigum að sýna að við tökum alvarlega þá stöðu sem uppi er.

Þetta snýst allt um trúverðugleika. Trúverðugleiki þessarar ríkisstjórnar er undir, trúverðugleiki íslensks viðskiptalífs er undir, trúverðugleiki þingsins, trúverðugleiki íslensku þjóðarinnar. Hann er undir í öllu þessu máli. Það hvernig við bregðumst við skiptir miklu.

Við slíkar kringumstæður, þegar trúverðugleikinn hefur beðið svona mikinn hnekki, verðum við, ef okkur stendur ekki á sama, að staldra við, slíta þessu þingi og boða til kosninga.