145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[16:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst þögnin frá stjórnarliðum vera orðin mjög æpandi. Hún var reyndar orðin æpandi fyrir einhverju síðan.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. stjórnarliðar sjái fyrir sér hvernig þingmenn minni hlutans ættu að bregðast við. Ef þetta er ekkert mál ættum við að segja bara: Ó, ekkert mál, það eru borgaðir skattar, þetta er kennitala konunnar, eitthvað svona, og láta þar við sitja?

Mundu hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans gera það ef svona mál kæmi upp hjá ráðherra sem væri ekki í þeirra röðum? Mundu þeir gera það? Það færi varla í landráð dagsins í boði Framsóknarflokksins eða hvað?

Eða hvað? Ættum við að skammast okkar yfir því að skammast yfir þessu máli? Hvað eigum við þingmenn minni hlutans að segja við erlenda blaðamenn sem spyrja okkur: Hvað er í gangi á þessu landi ykkar? Eigum við að segja: Já, nei, þið misskiljið þetta allt saman, kæru erlendu blaðamenn. Þetta er allt í lagi hjá okkur. Það eruð þið sem eruð að misskilja. Er það það sem við eigum að segja, virðulegi forseti?

Þetta er orðinn algjör fíflaleikur, virðulegi forseti. Það er verið að hafa Alþingi og íslenska þjóð að fífli.