145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

orð forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali.

[16:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla hvorki að fara að halda því fram að frammistaða mín í þessu viðtali hafi verið til eftirbreytni né að fara að rekja hér, sem þó er ástæða til, til að setja hlutina í samhengi, með hvaða hætti þetta bar að, til þess að skýra hvernig ég svaraði, svör sem byggðust fyrst og fremst á undrun og því að reyna að átta sig á því hvað verið væri að fara. Það liggur hins vegar alveg fyrir með hvaða hætti eignarhald þess fyrirtækis sem hv. þingmaður spyr um er. Ég nefndi ýmislegt í óðagoti, held ég að megi alveg kalla, virðulegi forseti, í þessu viðtali á meðan ég var að reyna að ná áttum um hvers vegna umræðan var allt í einu orðin allt önnur en boðað hafði verið. Ég nefndi til dæmis það sem er þekkt staðreynd að lífeyrissjóðirnir, og verkalýðshreyfingin að einhverju leyti í gegnum þá, eru með miklar eignir skráðar víða þar sem rekin eru aflandsfélög. Þetta kom síðast fram fyrir fáeinum dögum í fjölmiðlum. Og jafnvel að forustumenn úr verkalýðshreyfingunni hefðu verið í stjórnum slíkra félaga. Svoleiðis að ég ætla ekki á nokkurn hátt að reyna að halda því fram að ég hafi verið skýr í því hvernig ég kom hlutum frá mér í því viðtali sem hv. þingmaður spyr um.

Staðreynd málsins er hins vegar skýr eins og ég gerði reyndar grein fyrir í téðu viðtali þegar loksins lá fyrir um hvað var verið að ræða. Staðan er sú að þetta er fyrirtæki í eigu konunnar minnar. Það hafa alltaf verið greiddir af því skattar og frá því að við vorum samsköttuð sem hjón hefur það einnig birst á skattframtölum mínum.