145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

hagsmunaskráning þingmanna og siðareglur.

[16:27]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil minna hæstv. forsætisráðherra á að hann settist á þing árið 2009. Samkvæmt þeim upplýsingum sem okkur bárust úr sjónvarpinu í gærkvöldi var hann þá eigandi félags sem staðsett var í skattaskjóli og átti eignir annars staðar. Okkur hafa sömuleiðis borist upplýsingar um að þetta félag hafi seinna meir verið einn af kröfuhöfum föllnu bankanna.

Þannig að ég verð að segja að þessi afstaða gagnvart skráningu og flöggun kemur mér á óvart og kemur eiginlega dálítið flatt upp á mig.

Við megum ekki gleyma að þessar reglur fjalla ekki bara um okkur sem sitjum hér á Alþingi í dag. Við erum að leggja línuna í íslenskri pólitík, ekki bara fyrir daginn í dag, heldur líka viðmiðið fyrir það sem á eftir að gerast fram í framtíðina, áratugina fram í framtíðina. (Forseti hringir.)

Upplifir hæstv. forsætisráðherra að þessi staða geti annað en lækkað það viðmið (Forseti hringir.) og opnað fyrir meiri óreglulegheit í framtíðinni?