145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

viðbrögð ráðherra við álitshnekki Íslands.

[16:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Nú minni ég á rót þessa máls alls, máls sem er í rauninni mál á heimsvísu. Um hvað snýst það? Það snýst fyrst og fremst um að afla upplýsinga til að meta hvort menn hafi greitt skatta sína og skyldur. Þar af leiðandi er ákaflega mikilvægt að veita réttar upplýsingar um þau mál sem varða Ísland, um þau mál sem tengjast mér eða fjölskyldu minni og önnur mál sem tengjast íslenskum stjórnmálum og fyrirtækjum. Til að svara spurningunni um hvað ég telji að mönnum þyki um þetta í útlöndum þá tel ég að mönnum þyki gott ef menn hafa alla tíð staðið við sitt gagnvart samfélagi sínu, greitt skatta sína og ekki nýtt möguleika sem kynnu að hafa skapast til annars. (HHG: Segðu Merkel það.)