145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

upplýsingar og skilgreining á skattaskjólum.

[16:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra leyndi upplýsingum um gríðarlega hagsmuni sína, bæði þegar hann sjálfur var skráður fyrir helmingseign í félaginu og eftir að það hafði verið fært yfir á konu hans. Svíþjóð, hæstv. forsætisráðherra, er ekki á skrá yðar eigin fjármálaráðuneytis yfir skattaskjól. Það liggur hins vegar fyrir að Bresku Jómfrúreyjar eru meðal þeirra fjögurra ríkja af 150 ríkjum veraldarinnar sem OECD telur að veiti minnstar og verstar upplýsingar af þeim öllum. Við hljótum að spyrja hvort forsætisráðherra landsins ætli enn einn ganginn að koma hér í ræðustól og segja okkur það blákalt að Tortólueyja sé ekki skattaskjól. Og að það hafi verið fullkomlega eðlilegt af honum og eiginkonu hans að velja ríki sem svo kirfilega leynir upplýsingum (Forseti hringir.) að jafnvel hin vanþróuðustu ríki um veröldina standast því ekki samanburð. Hvers vegna velja (Forseti hringir.) menn slík ríki, virðulegur forseti? Það er öllum augljóst og forsætisráðherra sæmst að biðjast afsökunar á þessu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)