145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurnatíma rétt áðan kom fram og kristallaðist hversu alvarlegur vandi það er sem við er að eiga hér á Íslandi þar sem forherðing forsætisráðherra var algjör. Í hverju einasta svari sneri hann hlutunum sjálfum sér í hag af fullkomnu purkunarleysi og forherðingu.

Skýrasta dæmið var þó þegar hann fór að togast á um það hvað teldist vera lágskattasvæði eða skattaskjól. Samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/2003 með síðari breytingum skal ráðherra birta lista yfir þau lönd og svæði þar sem skattlagning samkvæmt þeirri grein tekur til. Það er opinber listi frá fjármálaráðuneytinu um lágskattasvæði. Það er listi sem er undirritaður af fjármálaráðherra íslenska ríkisins og þar eru Bresku Jómfrúreyjar. Þær skilgreinast sem skattaskjól (Forseti hringir.) af íslenskum stjórnvöldum.

Að hæstv. forsætisráðherra skuli leyfa sér í hálfkæringi að tala um (Forseti hringir.) að þar væri alveg eins hægt að tala um Svíþjóð lýsir firringunni, (Forseti hringir.) purkunarleysinu og dónaskapnum gagnvart íslenskum almenningi.