145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:50]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Alþingi götunnar er farið að safnast saman á Austurvelli kannski vonum seinna. Við höfum hlustað á yfirklór og hártoganir forsætisráðherrans sem stendur hér staffírugur í ræðustóli, biðst ekki afsökunar á nokkrum sköpuðum hlut, þrætir við þingheim um hvort hann og fjölskylda hans eigi eigur í skattaskjólum. Við erum stödd í leikhúsi fáránleikans, virðulegi forseti. Það er ekki hægt að rökræða á skynsamlegan hátt eða taka siðferðilega afstöðu í orðræðu meðan hún er með þessum hætti. Menn komast upp með að standa frammi fyrir þingheimi og þræta eins og þeir séu (Forseti hringir.) í sandkassanum en ekki á Alþingi Íslendinga. Þjóðin (Forseti hringir.) er farin að safnast saman fyrir utan Alþingishúsið, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Hún mun kannski kveða upp sinn dóm fyrr en margan varir.