145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:56]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að leggja sig eftir því, og ég gerði það, að reyna að skilja svör hæstv. forsætisráðherra hérna áðan. Ég verð að segja að ég skildi hvorki upp né niður. Hann talar ekki nógu skýrt fyrir mig, það er bara svoleiðis.

Það var helst á honum að skilja að það væri svo erfitt að eiga peninga á Íslandi. Það er hægt að eiga peninga á bankabók á Íslandi og borga af þeim fjármagnstekjuskatt. Hann er 20%. Af hverju velur fólk sem á peninga að gera það ekki? Af hverju velur það að borga af peningunum eða eignunum einhvers staðar annars staðar? Er það af því að þar eru lægri skattar?

Hæstv. ráðherra sagði hér að félagið væri ekki meira en eins dollars virði ef ég heyrði rétt. Hvað meinarðu? Hvað eru þá þessar 500 milljónir? (Forseti hringir.) Hvað er það? Hvað er þessi krafa í Landsbankann? Er það sama og einn dollar? Ég skil ekki hvað er verið að ræða hérna.

Forsætisráðherra er farinn. Hér inni sitja tveir stjórnarþingmenn og þessi samkoma er skrípaleikur. Það á að slíta þingfundi strax og efna til kosninga.