145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hann er farinn. Forsætisráðherra Íslands er farinn úr þingsalnum.

Það er alþjóðlegt hneyksli sem skipað hefur Íslandi á bekk með spilltustu ríkjum veraldarinnar. Hér eru fjölmiðlar alls staðar að úr heiminum til að flytja fréttir af því sem gerist. Það er um ein og hálf klukkustund eða sem nemur lengd einnar bíómyndar sem umræður um þessa stöðu eiga að taka í þjóðþinginu sjálfu. Og forsætisráðherrann er farinn.

Það segir okkur, virðulegur forseti, allt sem segja þarf um virðingu forsætisráðherrans fyrir lýðræðinu, fyrir þinginu og eftirlitshlutverki þess og fyrir upplýsingaskyldu hans gagnvart þinginu. Slíkur forsætisráðherra getur (Forseti hringir.) ekki setið í vestrænu lýðræðisríki. Ef við viljum halda áfram að vera vestrænt lýðræðisríki verður hann að segja af sér.