145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:07]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Með því að sýna það í verki að hafa áhuga og vilja til að halda þeirri leið opinni að geyma peningana sína þannig að ekki sé hægt að vita hvort af þeim sé greitt til samfélagsins, eins og almenningur þarf að gera og hefur þurft að gera til að rétta landið við eftir hrun og tekið á sig miklar byrðar til þess, hafa stjórnmálamenn sem í hlut eiga glatað öllu trausti og verðleikum til að fara með vald og fé fyrir hönd almennings og í þágu almennings.

Með því að tala fjálglega um gagnsæi og ábyrgð en gera svo allt til að leyna gerðum sínum og fela slóð sína hafa hlutaðeigandi stjórnmálamenn orðið fullkomlega ómerkir orða sinna.

Með því að hamast gegn fjölmiðlum og skjóta sendiboðana sem hafa verið hollir almenningi og lagt mikið á sig til að gæta hagsmuna þeirra og verja lýðræðið fyrir blekkingum og skrumskælingu hafa þessir stjórnmálamenn sýnt að hollusta þeirra er við eigin hagsmuni og sérhagsmuni en ekki almannahagsmuni.

Stjórnmálamenn sem þannig er komið fyrir verða að víkja. Það er það sem fleiri þúsund manns úti á Austurvelli biðja um.