145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef oft gaman af því að fara inn á erlendar vefsíður þegar Íslendingar hafa staðið sig vel í einhverju og fá staðfest að einhver hafi tekið eftir því að Ísland vann Sviss í fótbolta eða að við urðum númer tvö í Júróvisjón. Tilfinningin þegar ég fór inn á dr.dk í morgun var hins vegar ekki góð. Ég hef ekki farið inn á erlendar vefsíður eftir það vegna þess að ég tek út fyrir þetta. Ég kemst kannski upp með það að taka yfirferðina í einhverjum bútum, taka tvær síður á dag, en hæstv. forsætisráðherra kemst ekki upp með að skoða ekki hvað er í gangi á erlendum vefsíðum. Ef hann skoðar, eins og hann ætti að vera að gera, hvað er verið að segja um okkur ætti hann að vera búinn að segja af sér þótt ekki væri nema bara fyrir það, alveg sama þótt honum sjálfum finnist hann ekki hafa gert neitt rangt. Það kemur málinu ekki lengur við. Það er aukaatriði.

Trúverðugleikinn er farinn. Ef við njótum ekki trúverðugleika á alþjóðavísu vegna þess að forsætisráðherrann hefur staðið sig illa, alveg óháð því hvað honum finnst sjálfum, verður hann að víkja. Hjá því verður ekkert komist. (Forseti hringir.) Enn og aftur biðla ég til stjórnarliða að ræða við hæstv. forsætisráðherra og leiða honum sannleikann fyrir sjónir.