145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hafði svo sem ekki þá hugmyndafræði í upphafi að það hefði eitthvað upp á sig að forsætisráðherra gæfi skýrslu vegna þess að augljóslega nær siðferði hans ekki yfir það að eitthvað sem hefur gerst sé ekki í lagi. Honum finnst þetta í lagi. Hann hefur útlistað það í löngum viðtölum við sjálfan sig og konuna sína og telur það boðlegt gagnvart Alþingi og þjóð sinni að taka viðtal við sjálfan sig og birta á heimasíðu sinni. Trumbuslátturinn er hafinn. Hér er því miður ekki færra fólk en eftir búsáhaldabyltinguna og það segir allt sem segja þarf.

Mér kemur ekkert við hvort hæstv. ráðherra og kona hans borguðu skatta eða ekki. Það er ekki málið. Málið er siðferðislega spurningin um að velja og hafa yfir höfuð geð í sér til að eiga fjármuni (Forseti hringir.) í skattaskjólslandi. Um það snýst málið. Það er kjarninn. Það snýst ekki (Forseti hringir.) um það hvort ráðherra íslenska ríkisins borgar hér skatta eða ekki. Þetta snýst um siðgæði og siðrof sem augljóslega á sér stað í höfðinu á hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra. Þetta er siðblinda, virðulegi forseti.