145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það var eitt sem var ánægjulegt við þennan Kastljóssþátt hér í gær og það var að heimurinn sá það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að ræða á hverjum degi nánast allt frá síðustu kosningum, þ.e. að hæstv. forsætisráðherra telur sig hafinn yfir það að svara eðlilegum spurningum nema með útúrsnúningi og þegar honum leiðast eðlilegar spurningar gengur hann á dyr. Þarna gerði hann það bara sisvona í upptöku. Það er ánægjulegt að það blasi við heimsbyggðinni, þessi hryllilegi vandræðagangur.

En ef Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni er svona annt um orðspor Íslands, eins og kom hér fram áðan, spyr ég: Hvað var maðurinn að hugsa á tímabilinu frá 11. mars til 3. apríl? Í þrjár heilar vikur vissi hann af þessari hörmungarupptöku og af þessari ömurlegu frammistöðu og gerði ekkert til að stilla saman strengi eða til að lágmarka skaðann af þessum hryllilega vandræðagangi (Forseti hringir.) sem þarna var kominn upp.

Ég þakka virðulegum forseta fyrir að taka mál út af dagskrá þingsins í dag það sem eftir lifir fundarins og treysti því að engin mál verði sett á dagskrá fyrr en vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar kemst hér til umræðu.