145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Hér er gríðarlega mikið í húfi. Ekki bara trúverðugleiki hæstv. forsætisráðherra heldur allra stjórnmálamanna og traustið í samfélaginu.

Ætlum við að hafa þetta land þar sem ungt fólk vill búa og starfa og þar sem það hefur trú á að rétt sé gefið og leikreglur virtar og það muni njóta dugnaðar síns og hæfni? Eða ætlum við að hafa þetta land þar sem tengingar, mismunun og spilling ráða því hverjir fá og hverjir fá ekki og hverjir hafa aðgang og hverjir eru útilokaðir? Er það landið sem við ætlum að færa börnunum okkar, skila til barnanna okkar?

Þeir stjórnmálamenn sem taka að sér að verja þetta athæfi fórna hagsmunum almennings og lýðræðisins og það fyrir foringjahollustu og valdastóla og láta undan kjarkleysi sínu og ótta við kjósendur, almenning í landinu.

Ég skora á þá stjórnarþingmenn sem hér eru að fordæma þetta því að sagan mun ekki fara mjúkum höndum um þá. Og þjóðin mun fylgjast afar vel með því sem hver og einn alþingismaður mun gera á næstu dögum. Þið getið alveg verið vissir um það.

Þetta er fordæmalaust ástand. Ég skora enn og aftur á hæstv. forsætisráðherra að stíga til hliðar og lægja öldurnar í samfélaginu því að það er alveg ljóst að þetta mun ekki vera þagað í hel hér eftir.