145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekkert frekari skýringar frá hæstv. forsætisráðherra. Hann ætti að segja af sér og hann ætti að gera það strax. Sú hugmynd að þessi ágæti hópur hérna fyrir utan sem telur þúsundir, mjög greinilega, hafi einhvern veginn ekki fengið skýringarnar frá hæstv. forsætisráðherra er fáránleg. Sú hugmynd að það sé einhvern veginn hægt að leiðrétta ímyndarbrestina gagnvart erlendum aðilum með því að gefa þeim einhverjar upplýsingar er fráleit. Ég velti fyrir mér: Eigum við að fara að venjast þessum mótmælum í hvert sinn sem almenningur og erlendir fjölmiðlar og erlendir stjórnmálamenn og tæpur helmingurinn af Alþingi, rúmur tel ég reyndar, misskilur eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra gerir, til dæmis þegar hann hefur eigin hagsmuni sem kröfuhafi og er með verðmæti sín á Tortólu? Í alvöru talað. Ef hann á ekki að segja af sér undir þessum kringumstæðum, þá hvenær? Hvað í ósköpunum þarf til (Forseti hringir.) þess að hæstv. forsætisráðherra segi af sér?