145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

eignir ráðherra í skattaskjólum.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Vandinn við umræðuna fyrstu dagana eftir gagnalekann mikla hefur verið sá að menn gera akkúrat það sem hv. þingmaður var að gera hér, sem er að setja á sömu hilluna þá sem hafa stundað alþjóðleg viðskipti og gert það heiðarlega með gagnsæjum hætti og haft sín mál á hreinu og uppi á borðinu og svo hina sem nýta sér félög og lönd á lágskattasvæðum í þeim tilgangi að svíkjast undan skyldum sínum sem borgarar hinna ýmsu ríkja. Þeir sem gera eins og hv. þingmaður eru að viðhalda umræðunni og umrótinu. En vandi hv. þingmanns er reyndar dýpri en þessi vegna þess að hann, í kröfu sinni um að nú verði gengið strax til kosninga, er ekki mjög trúverðugur enda augljóslega fyrst og fremst að reyna að bjarga eigin skinni vegna þess að hann þorir ekki í landsfund Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Þar fyrir utan er þetta (Gripið fram í.) — nú ætla ég að fá frið til þess að tala, hæstv. forseti.

Síðan er eitt til viðbótar sem ekki er hægt að horfa fram hjá vegna þess að hv. þingmaður tekur þetta djúpt í árinni varðandi alþjóðleg viðskipti. Hvernig var það þegar hann var bankaráðsmaður í Búnaðarbankanum og stjórn bankans ákvað að opna útibú í Lúxemborg til þess að efla útlánastarfsemi bankans, efla tengslin við viðskiptavini, fara í aukin gjaldeyrisviðskipti og lagði þar með grunn að viðskiptum fjölmargra Íslendinga í gegnum útibú bankans í Lúxemborg sem síðan hafa haft ýmsar afleiðingar, m.a. fyrir samflokksmenn hv. þingmanns?

Ég óska eftir því að menn beiti sér fyrir því hér á þinginu, vegna þess að það reynir auðvitað mjög á innviði samfélagsins við þær aðstæður sem hér hafa skapast, að taka þessa umræðu málefnalega.

Það sem ríkisstjórnin hefur gert í þessari viku eru eins og hv. þingmaður segir sögulegir atburðir. Í fyrsta lagi hefur forsætisráðherrann (Forseti hringir.) stigið til hliðar og við höfum síðan boðað að það verði (Forseti hringir.) kosningar í haust. Þá mun ég ekki hlíta dómi hv. þingmanns heldur dómi kjósenda í þessu landi (Forseti hringir.) sem er eina rétta lýðræðislega leiðin til þess að greiða úr svona stöðu. (Gripið fram í.)