145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

eignir ráðherra í skattaskjólum.

[11:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru til tvær leiðir til að bregðast við erfiðum aðstæðum og því þegar tiltrúin hverfur á íslensk stjórnmál. Það er að leita leiða til að skilja aðstæðurnar og vísa veginn fram á við eða atast áfram eins og naut í flagi. Við sjáum hvorn kostinn hæstv. fjármálaráðherra kýs.

Nafn mitt er ekki í Panama-skjölunum. Ég átti ekki fyrirtæki á Seychelles-eyjum. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefur raunverulega trú á því að hann hafi ekkert að óttast, hvers vegna er hann að reyna að fresta sínu skapadægri? Hvers vegna þorir hann ekki að hitta kjósendur strax eins og ákall er um í samfélaginu? Hvers vegna reynir hann að ata alla aðra auri frekar en að hjálpa til við að hreinsa orðstír Íslands með því að víkja sjálfur til hliðar?