145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða stjórnvalda til skattaskjóla.

[11:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að kalla hæstv. atvinnuvegaráðherra forsætisráðherra en það er erfitt að átta sig á ráðherraskiptum í þessari ríkisstjórn og hver nákvæmlega er forsætisráðherra miðað við þær fréttatilkynningar sem berast úr forsætisráðuneytinu.

Ég vil spyrja mjög skýrt af því að hæstv. atvinnuvegaráðherra segir að það sé ekkert að því að fólk kjósi að geyma eignir sínar á lágskattasvæði. Það segir verðandi hæstv. forsætisráðherra. Er ekkert að því? Erum við ekki aðilar að alþjóðlegum skuldbindingum sem snúast um það, hvort sem er á norrænum vettvangi eða vettvangi OECD, að berjast eigi gegn tilvist lágskattasvæða? Að berjast eigi gegn tilvist skattaskjóla sem veita ekki upplýsingar sjálfkrafa um þær eignir sem þar eru geymdar?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Er hann ekki einlægur í því að berjast gegn tilvist skattaskjóla og breyta því sem þarf til þess? Finnst hæstv. ráðherra í lagi að kjörnir fulltrúar, (Forseti hringir.) þeir aðilar sem gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina, fari þessa leið þrátt fyrir opinbera stefnu og reyni svo að leyna því?