145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

siðareglur ráðherra.

[11:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi segja að upphaf siðrofs sé kannski erfitt að finna. En það er ljóst að á árunum frá kannski 2004 til 2008 gengu hér miklir hlutir á sem mörgum blöskraði, þar á meðal mér, þegar það var orðið algengt að menn báru fé á þá sem eitthvað áttu og buðu að kaupa eitthvað án þess að það væri til sölu. Mér fannst það óeðlilegt ástand.

Ég þykist ekki vera einn þeirra sem hafi séð hrunið fyrir, ekki frekar en margur annar. En ég held að það að við höfum trúað mörg hver um of á mátt peninga hafi ekki verið skynsamlegt. (Gripið fram í.)

Annað er hins vegar að við höfum lög og reglur í samfélaginu. Þeir sem hlíta þeim og fara að öllu leyti eftir þeim leikreglum — það getur ekki verið að við eigum að kalla slíkt fólk öllum illum nöfnum. Það er stór munur á því.

Varðandi siðareglur og hagsmunaskráningu okkar á þinginu er augljóst að eitt af þeim verkum sem við þurfum að gera hér á allra næstu dögum er að fara yfir hvort sú skráning sé til að mynda rétt, hvort siðareglur séu nægjanlega góðar, nægjanlega skýrar, þótt ekki væri nema til að upplýsa fyrir hvað þær standa.

Ég held að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem við verðum að nálgast með eðlilegri auðmýkt og skilningi á að hugsanlega þurfi að skýra reglurnar betur. Það hefur verið mikið fjallað um það í fjölmiðlum og menn hafa ekki verið á eitt sáttir um túlkun þeirra. Það er auðvitað óásættanlegt. (Forseti hringir.) Það þarf að vera alveg skýrt fyrir hvað slíkar reglur standa og hvernig menn eiga að fylgja þeim eftir (Forseti hringir.) þó svo að þær séu fyrst og fremst viðmið og hver og einn verði að eiga það við sína samvisku.