145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki Íslands.

[11:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Við erum annars vegar að segja — þetta er endurtekið að gerast hér — annars vegar er sagt úr ræðustól að þetta séu söguleg tíðindi, atburðir sem eigi sér engin fordæmi, afsögn forsætisráðherra, og svo hins vegar að ekkert hafi gerst. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þetta eru aðstæður sem valda okkur áhyggjum, en við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð sem þjóðin hefur falið okkur að vinna úr þessum málum málefnalega og í einhverju jafnvægi. Nú höfum við sagt að kosið verði næsta haust. Þá verður umboð þeirra sem hér starfa endurnýjað og í millitíðinni hyggst ríkisstjórnin vinna að framfaramálum sem hún hefur sett á dagskrá.

Við höfum áður lent í kröppum dansi. Ég nefni eitt, þó að það sé og ég virði það ef mönnum finnst það ekki alveg nægilega gott dæmi, við vorum í miklum vanda og neikvæðri umræðu þegar hér urðu eldsumbrot og miklar raskanir á samskiptum. Þeirri stöðu náðum við að snúa okkur í hag. Þetta eru ekki fyllilega sambærileg mál, en ég vek samt athygli á því að það kastljós sem beindist að okkur á þeim tíma (Forseti hringir.) var nýtt til þess að koma á framfæri réttum skilaboðum.

Við höfum margt (Forseti hringir.) fram að færa eftir þær lagabreytingar og þær áherslur sem fylgt hefur verið á undanförnum árum í umræðunni um (Forseti hringir.) aflandsfélög og hvernig eigi að taka á þeim málum.