145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

verkefni ríkisstjórnarinnar.

[11:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli hvernig við presenterum það sem við erum að gera hér á Íslandi. Á síðustu þremur árum höfum við gert það með mjög skýrum hætti og vakið mikla athygli og oft á tíðum aðdáun umheimsins á því hvernig við höfum tekið á því að byggja upp landið að nýju í kjölfar Icesave, í kjölfar þess að taka á slitabúum fallinna banka. Það er mjög góð leið til þess að byggja upp traust bæði innan lands og út á við.

Varðandi þá kröfu sem heyrst hefur hér um kosningar strax þá er 38 þingmanna meiri hluti á þinginu. Það er starfandi ríkisstjórn og við erum tilbúin að halda áfram og ljúka þeim stóru verkum sem við teljum vera mikilvægara fyrir þjóðina að við ljúkum áður en við göngum til kosninga. Ég veit vel að stjórnarandstaðan getur verið ósammála okkur um það og við getum tekið málefnalega umræðu um það. En það er okkar vilji og það er meiri hluti í þinginu. (Forseti hringir.) Við komum til móts við þau sjónarmið með því að flýta kosningum og hafa kosningar í haust (Forseti hringir.) en það byggist á því að við náum að ljúka þeim mikilvægu málum sem eru í þinginu og við erum að vinna að.