145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

notkun skattaskjóla.

[11:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Orðstír Íslands hefur beðið hnekki og ásýnd Íslands er löskuð. Svo virðist sem spillingaröfl ráði landinu. Þátttaka íslenskra stjórnmálamanna í notkun skattaskjóla, sem lekinn frá Panama hefur þegar opinberað, dregur upp þá mynd að íslenskir stjórnmálamenn séu gráðugir og spilltir og til í að láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum. Almenningur sættir sig ekki við blekkingadansinn sem stiginn hefur verið eða fréttirnar sem lekinn færir okkur og krefst þess að ríkisstjórn, þar sem bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa nýtt sér skattaskjól, fari frá. Skattaskjól eru með hreinsibúnað og felunet sem lýðræðisríkið Ísland kærir sig ekki um.

Á sunnudaginn urðum við vitni að fordæmalausri afhjúpun á eigum hæstv. ráðherra í skattaskjólum. Daginn eftir urðu hér stærstu mótmæli í sögu landsins og daginn þar á eftir átti sér stað hreint ótrúleg atburðarás og Ísland varð að athlægi úti um allan heim. Á þessu sama tímabili fór hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og tilvonandi forsætisráðherra í hvert viðtalið á fætur öðru til að verja gerðir fráfarandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, til að verja tilvist skattaskjóla og notkun stjórnmálamanna á þeim. Auk þess réðust hv. þingmenn Framsóknarflokksins að þeim sem fluttu fréttirnar, réðust að Ríkisútvarpinu með dylgjum. Hæstv. ráðherra sagði fyrr í umræðunni að hann væri ekki alfarið á móti tilvist skattaskjóla og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort framsóknarmenn séu almennt sammála honum um þetta og hvers vegna hann ætti að njóta trausts til þess að leiða landið eftir framgöngu hans síðustu daga og réttlætingu hans á notkun skattaskjóla. Hver er munurinn á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fráfarandi forsætisráðherra? (Forseti hringir.) Hvers vegna er hæstv. ráðherra betri kostur?