145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

málefni tengd skattaskjólum.

[12:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má kannski kalla það framför að stjórnvöld á Íslandi draga nú ekki lengur lappirnar með jafn áberandi hætti og þau gerðu á árunum fyrir hrun í valdatíð sömu flokka og nú eru við völd. Þá var Ísland til háborinnar skammar og þá var verið að reyna að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð og lágskattasvæði. Það má segja að ástandið sé skárra að þessu leyti í dag, samanber það sem hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir.

En ég fæ mig nú ekki til þess að þakka það sem alveg sérstakt afrek af hálfu hæstv. ráðherra að hafa tekið þátt í því að undirrita plögg með OCED. Ég vísa einnig til norræna samstarfsins þar sem er önnur nálgun. Við getum verið pólitískt ósammála um hana, en hún er samt sú að reyna að draga úr skaðlegri skattasamkeppni og undirboðum.

Mér finnst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra brattur að tala um tækifæri fyrir Ísland, að minnsta kosti hvað landkynninguna snertir, í bili. Það er dálítið djarft að tala um tækifæri í þeim efnum. Er ekki veruleikinn sá að nú er loksins komið heimsmetið sem hæstv. fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var alltaf að stæra sig af? Nú á hann loksins heimsmet, með þrjá ráðherra í sinni ríkisstjórn sem eru á Panama-skjölunum, nokkra borgarfulltrúa í viðbót og 600 landsmenn (Forseti hringir.) sína í viðbót. Þetta er allt saman í boði sömu flokka. Þetta er á grundvelli hugmyndafræði og pólitíkur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, allt saman. Það er fortíðin frá (Forseti hringir.) nýfrjálshyggjutímanum sem er að elta þessa flokka uppi núna. (Forseti hringir.) Því miður er það þjóðinni sem blæðir.