145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan beindi ég mjög ákveðnum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra, m.a. um það hvort allir Íslendingar ættu ekki bara að geyma peningana sína á Tortólu.

Ég fékk engin svör við þeirri spurningu, aðeins eitthvert óljóst muldur um grein sem ég skrifaði fyrir tíu eða ellefu árum sem snerist um að biðja forsvarsmenn fyrirtækis sem ég var millistjórnandi hjá að leggja ekki niður starfsstað 110 manns.

Ég velti fyrir mér hvað hæstv. fjármálaráðherra gengur til með því að bera saman algjöran skort á trausti, það að hann sé staddur í miðri hringiðu Panama-skjalanna, og einhverja slíka grein. Ég frábið mér, virðulegur forseti, og vil að það sé skrifað í þingtíðindin, að þetta sé á einhvern hátt borið saman og að það sé dregið upp sem eitthvað vafasamt að menn hafi reynt að koma í veg fyrir að fólki yrði sagt upp fyrir meira en áratug, þegar ekkert vafasamt var á ferðinni.

Ég veit ekki hvað hæstv. fjármálaráðherra gengur til með því að bulla svona í ræðustól. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)