145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem hérna upp til að lýsa yfir mikilli hryggð með byrjunina hjá tilvonandi forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Þeim datt ekki í hug að standa hér og sýna iðrun og biðja þjóðina afsökunar á þeim farsa sem okkur hefur verið boðið upp á síðustu daga. Það er fyrir neðan allar hellur. Það er engin auðmýkt eða neitt til hjá þessum mönnum. Ég hef hvatt til þess alveg frá byrjun og ég man að við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra haustið 2013 skoraði ég á hann að sýna auðmýkt og taka tillit til allra sjónarmiða, líka þeirra sem ekki kusu hann. En hann hefur hunsað það algjörlega, því miður. Ég vil líka segja það, þótt mér komi ekkert við hvernig þingmenn Framsóknarflokksins starfa, að mér finnst framkoma foringja þeirra gagnvart þeim með ólíkindum. Það er mér algjörlega óskiljanlegt að þeir skuli fylgja honum í einu og öllu. Það góða fólk sem ég hef fengið að starfa með hér í þrjú ár á ekki skilið hvernig komið er fram við það.