145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil biðja forseta um að tryggja það, ef ríkisstjórnin ætlar að koma fram með þá kröfu að hún fái að ljúka þingmálum og halda áfram þrátt fyrir fullkomið vantraust á þeirra verk, aðeins fjórðungur þjóðarinnar treystir þessari ríkisstjórn, að við fáum nákvæma dagsetningu. Ég veit að það sama á við um alla þingmenn stjórnarandstöðunnar og án efa þingmenn stjórnarinnar.

Mig langar líka að benda á það sem kom fram í umræðunum áðan, sem mér finnst svo alvarlegt, að talað er um að það sé allt í lagi, það sé löglegt að hafa eignir sínar í skattaskjólum og það sé erfitt að eiga peninga á Íslandi.

Forseti. Þó svo að allir Íslendingar mundu vilja fara með eignir sínar í skattaskjól þá er það bara þannig að miklu fleiri eiga í vandræðum af því að þeir eiga ekki peninga, ekki af því að þeir eigi svo mikið af þeim að þeir viti ekki hvað þeir eigi að gera við þá. Það skulum við hafa í huga.

Það að ráðherrar í ríkisstjórn sem eru með allt niður um sig komi og tali eins og það sé sjálfsagður hlutur að hafa eignir í skattaskjólum þegar við berjumst gegn tilveru skattaskjóla er auðvitað fráleitur málflutningur og setur þingið niður.