145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er þetta viðhorf hjá ríkisstjórninni gagnvart skattaskjólum yfir höfuð. Hæstv. atvinnuvegaráðherra, tilvonandi forsætisráðherra, segir í ræðu að það sé ekkert að því að geyma fé á lágskattasvæðum. Það er bara mikið að því fyrir samfélög. Það er mjög mikið að því. Eitt sem hefur verið gegnumgangandi í áratugi, áður en hrunið varð, er að þeir stjórnarflokkar sem núna eru við völd og voru við völd gerðu ekkert í því að koma í veg fyrir slíkt. Þess vegna hefur það verið viðvarandi að fjármagnseigendur í þessu landi, auðvaldið í þessu landi, útgerðarelítan í þessu landi, hefur komið fé sínu fyrir í skattaskjólum. Það er ekkert að því nema úps!, það komst upp af því að Panama-skjölin voru birt. Þá reyna menn að sýna einhvern málamyndabrag með því að hliðra til í sætum (Forseti hringir.) með sömu sjónarmið þar á bak við. Það er ekki líðandi fyrir þessa þjóð og almenningur sættir sig ekki við slíkt, því að það eru tvær þjóðir í þessu landi. Við þurfum að koma ríkisstjórn auðvaldsins í burtu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)