145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra hefur nú gert grein fyrir stefnu nýrrar ríkisstjórnar Íslands sem tók við á ríkisráðsfundi seinni partinn í gær.

Atburðarás síðustu daga hefur verið hröð og skapað óvissuástand sem þurfti að bregðast við. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu halda áfram stjórnarsamstarfi enda í augsýn lausn brýnna mála sem varða íslenskt þjóðarbú og allan almenning.

Fyrir dyrum stendur að hnýta lausa enda við afléttingu fjármagnshafta, styrkja heilbrigðiskerfið, fjölga úrræðum á húsnæðismarkaði og halda áfram að treysta aðra mikilvæga innviði. Farsæl niðurstaða þessara verkefna skapar frekari grunn að bættum lífskjörum og öflugra velferðarkerfi.

Hér fyrir þinginu liggur fjöldi mála frá öllum ráðuneytum sem eru langt komin í nefndum og það er skoðun okkar í stjórnarmeirihlutanum að það sé brýnt hagsmunamál fyrir Íslendinga að þau fái endanlega afgreiðslu á þinginu.

Menn segja sem svo að fjármagnshaftamálið skipti þinginu ekki niður í ólíka hópa. En þegar við kynntum áætlun okkar seint á síðasta ári, sem hlaut einróma lof og stuðning utan Íslands, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, frá matsfyrirtækjunum og öðrum, (Gripið fram í.) var stjórnarandstaðan ekki ánægð. Hún sagði: Þetta var það sem við ætluðum alltaf að gera. En á sama tíma sagði hún: Þið eruð að gera rangt. Þið eruð að gefa afslátt. Þið eruð að gera þetta. Þið eruð að gera hitt.

Það var engin samstaða um það mál í umræðum á þinginu. Það eru þess vegna ódýr orð að koma nú og segja: Auðvitað eigum við bara að láta nýja ríkisstjórn taka við og ljúka þessu máli, vegna þess að reynslan sýnir að menn fara alltaf í sömu skotgrafirnar og reyna að gera það besta fyrir sjálfa sig í þeirri stöðu sem upp kemur hverju sinni en horfa ekki (Gripið fram í.) á hagsmuni heildarinnar. (Gripið fram í.) Nú er það … (Forseti hringir.) (SJS: … búa til samstöðuna núna.)

Ég er að vísa til þess að hér er komið upp og sagt að það sé sjálfsagt og eðlilegt að ganga til kosninga vegna þeirrar miklu samstöðu sem sé um lausn haftamálsins. Þá er nærtækast að vísa til þess hversu mikil samstaðan var síðast þegar ríkisstjórnin lagði sínar lausnir á borðið í þinginu. Hún var ekki sú sem menn láta skína í hér. En ríkisstjórnin er með opinn arminn gagnvart stjórnarandstöðunni vilji hún styðja við þær lausnir (Gripið fram í.) sem eru í fæðingu og munu birtast í frumvörpum innan nokkurra vikna.

Það er auk þess ábyrgðarlaust að segja að það skipti engu máli þegar stjórnvöld hafa unnið að því að halda útboð vegna aflandskrónuvandans núna í maí. Að það skipti bara engu máli að hrökklast nú frá, boða til kosninga með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgir og setja heildaráætlun um afnám haftanna í algjört uppnám. (Gripið fram í.) Það er það sem menn verða jafnframt að hafa í huga.

Leiðarstef ríkisstjórnarinnar er að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og lækka skuldir ríkisins. Þannig skapast bæði forsendur fyrir skattalækkunum og bættri velferðarþjónustu. Grundvallaráhersla er að tryggja áfram að lífskjör fólksins í landinu batni samhliða bættri afkomu ríkissjóðs.

Hér er talað eins og einhverjir hafi verið skildir eftir. Kaupmáttur allra Íslendinga hefur vaxið á tímum þessarar ríkisstjórnar. Allra. Kaupmáttur bóta hefur tekið sögulegum hækkunum á þessu ári. Laun hafa hækkað verulega og aðstæður sem við höfum skapað og aðrar aðstæður sem hafa spilað með okkur hafa tryggt að launahækkanir, sem eru umfram það sem almennt er hægt að gera ráð fyrir, hafa skilað sér í vaxandi kaupmætti heimilanna.

Við erum sem sagt komin út úr kreppunni með þeim hætti að landsframleiðslan að nafnvirði mælt gagnvart hverjum og einum landsmanni er komin upp fyrir það sem hún var hæst fyrir bankahrunið. Sama gildir að sjálfsögðu um kaupmáttinn eins og ég hef verið að vísa til. Á ársfundi Seðlabankans fór ég yfir það að ég tel að okkur hafi tekist svo vel að endurreisa efnahagskerfi okkar Íslendinga að fram undan hafi tímarnir aldrei verið jafn bjartir eins og þeir eru einmitt nú þar sem við erum stödd í lengsta samfellda hagvaxtarskeiði okkar Íslendinga.

Skuldir heimilanna hafa á undanförnum missirum farið ört lækkandi. Þær lækka hraðar en annars staðar á Norðurlöndunum. Þær lækka hraðar á Íslandi en gagnvart öllum okkar samanburðarlöndum. Skuldir heimilanna lækka hraðar á Íslandi undir þessari ríkisstjórn en annars staðar. Það er staðan. Atvinnuástand er með betra móti og verðbólga hefur verið lág.

Við höfum náð þessum árangri bæði með aðgerðum sem í upphafi sættu gríðarlega mikilli gagnrýni en gengu 100% upp, skuldalækkunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar fyrir heimilin. Síðasta greiðslan var afgreidd í upphafi þessa árs og við höfum náð þessum árangri með því að leggja áherslu á að lækka skatta og gjöld, létta byrðum af heimilunum og atvinnustarfseminni. Þetta hefur skilað sér til fólks og út í atvinnulífið.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa gegnt lykilhlutverki í þessu og eru í fullu samræmi við það sem sagt var um þessi atriði, nákvæmlega þessi atriði, í stjórnarsáttmálanum. Við sögðum í upphafi að efnahagsmálin væru stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar. Það er á sviði efnahagsmálanna sem við Íslendingar stöndum upp úr í samanburði við þau lönd sem hafa þurft að glíma við erfiðleika á undanförnum árum.

Virðulegur forseti. Veruleg umskipti hafa orðið í hagkerfinu á undanförnum missirum og þetta hefur gengið hraðar en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona. Þar skiptir líka máli að beina sjónum að stöðu ríkissjóðs, að stöðu hins opinbera. Ég hef hér verið að beina orðum mínum að stöðu heimilanna og atvinnustarfseminnar. En skoðum líka hvernig staðan er hjá ríkissjóði. Við stöðvuðum skuldasöfnun ríkissjóðs á fyrstu dögum stjórnarinnar. Ég man eftir því að hafa verið hér á fyrstu dögum nýrrar stjórnar eftir kosningar 2013 og menn glottu út í annað munnvikið þegar ég sagði að við mundum bæði lækka skatta og loka fjárlagagatinu. Menn sögðu við mig fyrir kosningarnar síðustu: Formaður Sjálfstæðisflokksins er óábyrgur að lofa skattalækkunum við þær aðstæður sem nú er uppi. Þetta sögðu menn. En þetta gerðum við og það hefur komið í ljós að það skilar þeim árangri sem að var stefnt. (Gripið fram í: Við eigum eftir að sjá það.)

Umtalsverð verðmæti féllu til ríkissjóðs þegar slitabúin greiddu stöðugleikaframlögin. Við höfum í höndunum fjárlög sem gera ráð fyrir um 350 milljarða afgangi á þessu ári. Það eru fjárlögin sem við samþykktum núna fyrir nokkrum mánuðum. Það eru fjárlögin sem ég kynnti í haust og það er niðurstaðan af áherslumálum ríkisstjórnarinnar á síðasta ári. 350 milljarða afgangur á ríkisfjármálum. Svo segja menn hér að ríkisstjórnin sé ekki að ná árangri í samræmi við stefnu sína. Þau orð dæma sig sjálf.

Sá árangur sem náðist við uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja og þegar gengið var frá slitum þeirra er sögulegur. Hann á sér ekkert fordæmi í heiminum. Alþjóðlegir sérfræðingar sem komu að þessu máli sögðu: Þessi niðurstaða er einstök. Fordæmalaus niðurstaða.

Það þýðir ekki að við höfum leyst öll okkar verkefni á efnahagssviðinu. Það verður aldrei þannig að við á þingi getum látið þau skilaboð berast að verkefninu sé lokið. Alls ekki. Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Frá árinu 2009 hefur fjárfestingarstigi ríkisins verið haldið allt of lágu. Afleiðingarnar koma fram víða eins og í ástandi vegakerfisins, húsnæðisskorti, í heilbrigðismálum. Krafan um aukinn stuðning mikilvægra innviða hefur verið viðvarandi undanfarin ár.

Það má engu að síður vera ljóst að mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera og atvinnulífsins getur leitt til þess að of mikil spenna myndast í hagkerfinu ef bregðast á hratt við því. Við vitum að afleiðingin af því getur orðið of mikil verðbólga. Við getum einfaldlega ekki tekið of mikið út úr hagkerfinu í einu. Langtímaverkefnið og svarið við þessari stöðu er því að auka framleiðni og framleiðslugetu í hagkerfinu. Án aukinnar framleiðni verður ekki til staðar traustur grundvöllur fyrir áframhaldandi kaupmáttaraukningu almennings og þar með aukinnar velmegunar í landinu og sömuleiðis ekki raunhæfar forsendur til þess að halda innviðauppbyggingunni áfram.

Afnám vörugjalda árið 2015, niðurfelling tolla á þessu ári og því næsta eru mikilvæg skref í átt að bættum skilyrðum fyrir framleiðniaukningu. Lækkun tryggingagjalds sem liggur fyrir þinginu í frumvarpsdrögum er enn eitt dæmið um mál sem við verðum að klára. Við verðum að klára lækkun tryggingagjaldsins á þessu þingi, (Gripið fram í.) frá miðju ári 2016, í góðri sátt við Samtök atvinnulífsins og vinnumarkaðinn í heild sinni. Þetta kemur til viðbótar 0,34% lækkun frá árinu 2014 en á undanförnum árum höfum við náð upp þeirri lækkun og þetta mun enn frekar bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja í landinu, auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs gagnvart umheiminum.

Allir þessir þættir að viðbættu SALEK-samkomulaginu renna styrkari stoðum undir stöðugleika í landinu og batnandi lífskjör á komandi árum.

Aukin nýsköpun er mikilvæg forsenda. Ég held að þar séum við með eitt mál sem við höfum verið sammála um á Alþingi alveg frá 2009. Nýsköpun, þróun, vísindi, tækniframfarir. Þetta eru svið sem munu ráða úrslitum um kjör komandi kynslóða. Fyrir þinginu liggur einmitt eitt frumvarpið enn um það mál sem getur ekki beðið. Við ætlum að þétta stuðning við þessi fyrirtæki. Fyrir þinginu liggur frumvarp um stuðning við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja þar sem lagðar eru til ýmsar breytingar sem snúa að skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja eins og skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í þessari tegund fyrirtækja, ekki öðrum. Skattaleg ívilnun til erlendra sérfræðinga til þess að fá hingað til landsins, laða hingað með hvötum, hæft fólk alls staðar að úr heiminum. Frádráttur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Það er aðferð sem við höfum verið sammála um, en við leggjum til að við bætum í, gerum betur og tryggjum með því að fyrirtæki sem starfa á Íslandi noti Ísland sem vettvang fyrir rannsóknir og þróun (Gripið fram í.) en byggi þau störf ekki upp í öðrum löndum. Fleira er að finna í þessu frumvarpi sem kallað hefur verið eftir frá þeim vettvangi.

Hæstv. forseti. Ef vel er á spilum haldið blasa við veruleg tækifæri fyrir íslenska þjóð að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir með niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs. Við getum byggt upp á næstu árum samfélagslega innviði landsins og treyst til muna grunnþjónustu ríkisins á afar sterkum grunni opinberra fjármála.

Sé búið þannig um hnútana er lagður traustur grunnur að enn öflugra og fjölbreyttara velferðarsamfélagi því áfram verður rík þörf á að bæta velferðarkerfið og fleiri tækifæri skapast og möguleikar opnast fyrir einstaklinga til að finna kröftum sínum og hugviti farveg öllum til heilla.

Varðandi kröfuna um að virkja lýðræðið. Það þarf enginn að deila við mig um að við verðum að virkja lýðræðið til að bregðast við ákallinu um traust í samfélaginu. Ég hef sagt þetta margoft. Ég kallaði eftir kosningum á síðasta kjörtímabili einmitt í þeim tilgangi. Ég lagði líka fram vantraust þegar ríkisstjórnin fékk 98% þjóðarinnar (Gripið fram í.) á móti sér í atkvæðagreiðslu um að taka á Íslendinga nokkur hundruð milljarða skuldbindingar. Þá kallaði ég eftir atkvæðagreiðslu.

Margir þeirra sem hafa talað hér í dag og munu tala segja að nú sé einhvern veginn allt önnur staða upp á teningnum. (Gripið fram í.) En það sem við erum búin að gera og ekki var gert þá (Gripið fram í.) er að stytta kjörtímabilið og boða til kosninga. Það gerðum við.

Hér geta menn tekist á um hvort það eigi að kjósa strax eða síðar. En það er ekki verið að takast á við þessa ríkisstjórn um hvort það eigi að virkja lýðræðið til að bregðast við aðstæðunum vegna þess að það er okkar skoðun. Það er okkar skoðun að það verði að virkja lýðræðið til að bregðast við aðstæðum. (Gripið fram í.)Við skulum ekki búa til einhvern ágreining um það þótt við getum verið ósammála um hvort það þurfi að gerast núna í maí, eins og margir þingmenn telja, eða hvort það geti gerst í haust. Um það getur verið ágreiningur og við útkljáum hann hér í atkvæðagreiðslu.